Tugmilljarða verðmætisaukning sjávarafla milli tímabila

Deila:

Aflaverðmæti í október jókst um tæpa fjóra milljarða króna, samanborið við október 2021. Það var 18 milljarðar króna í október síðastliðnum en 14,3 milljarðar í október 2021. Þetta kemur fram í gögnum Hagstofu Íslands og er í takti við vermætisaukningu fiskaflans í heild að undanförnu. Þegar horft er til tólf mánaða tímabilsins frá nóvember 2021 til loka október 2022 jókst aflaverðmætið um 40 milljarða, miðað við sama tímabil þar á undan.

Tölur um aflaverðmæti síðustu tveggja mánaða liðins árs liggja ekki fyrir og því eru hér borin saman tólf mánaða tímabili frá nóvember til loka október. Á því mánaðabili árin 2021-2022 námu verðmæti afla af Íslandsmiðum við fyrstu löndun 175,5 milljörðum króna og jukust um tæplega 41,5 milljarða frá sama tímabili þar á undan. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að ekki voru loðnuveiðar á fyrra tímabilinu.

Þegar horft er til einstakra fisktegunda að baki aflaverðmætunum sést að þorskaflinn er í sérflokki, ef svo má segja. Verðmæti þorsks við fyrstu löndun námu um 85 milljörðum frá byrjun nóvember 2021 til loka október 2022. Aðrar helstu tegundir skiptust þannig á sama 12 mánaða tímabili:  ýsa 19,5 milljarðar, síld 12,5 milljarðar, karfi 10,8 milljarðar, loðna og loðnuhrogn 21,9 milljarðar, makríl 9,5 milljarðar, kolmunni 7,1 milljarður og grálúða 6,1 milljarður.

Deila: