Fjallabyggð styður endurnýjun björgunarskips á Siglufirði

Deila:

Samningur undirritaður um stuðning Fjallabyggðar við Björgunarbátasjóð Siglufjarðar vegna kaupa á nýju björgunarskipi. Á myndinni eru frá Gísli Ingimundarson, Kolbeinn Ó. Proppé, Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri og Magnús Magnússon.

Gerður hefur verið samningur milli Fjallabyggðar og Björgunarbátasjóðs Siglufjarðar um framlag til kaupa á nýju björgunarskipi fyrir Siglufjörð. Samkvæmt upplýsingum frá Fjallabyggð er samkomulaginu ætlað að tryggja fjármögnun á nýju björgunarskipi á Siglufirði sem mun koma í stað björgunarskipsins Sigurvins sem nú er orðið 34 ára gamalt. Starfssvæði nýja Sigurvins mun ná frá Tjörnesi í austri til Skagatáar í vestri. Fjallabyggð leggur fimm milljónir króna árlega í verkefnið næstu sex árin, samtals 30 milljónir króna.

Stærra og öflugra skip
Nýtt björgunarskip verður mun öflugra en það gamla, sem bæði er talið geta stytt viðbragðstíma til muna og stækkað auk þess þjónstusvæði þess.
„Með kaupum á nýju og öflugra björgunarskipi er öryggi sjófarenda betur tryggt og björgunarsvæði á hafsvæðinu úti fyrir Norðurlandi styrkt til muna.
Skipið er búið öllum fullkomnustu siglingatækjum sem völ er á. Heildarlengd þess er um 17 metrar. Ganghraði nær allt að 38 mílum og ristir skipið 0,8 metra. Skipið er m.a. búið hliðarskrúfu sem tryggir afburða stjórnhæfni. Jafnframt er um borð krani til að ná fólki úr sjó, öflug slökkvidæla og brunastútur,“ segir í frétt frá Fjallabyggð.

Helmingur kaupverðs úr ríkissjóði
Slysavarnafélagið Landsbjörg verður eigandi björgunarskipsins, en Björgunarbátasjóður Siglufjarðar útgerðaraðili þess en skipið verður með heimahöfn og staðsett á Siglufirði.
Ríkissjóður Íslands mun fjármagna helminginn af kaupverðinu en Björgunarbátasjóður Siglufjarðar og Slysavarnafélagið Landsbjörg fjármagna hinn helminginn. Björgunarbátasjóður Siglufjarðar mun annast rekstur björgunarskipsins. Rekstrartekjur af skipinu renna til Björgunarbátasjóðs Siglufjarðar og ber það jafnframt allan rekstrarkostnað þess.

Deila: