Bjartsýnn á árið

Deila:

Akurey AK-10, ferskfisktogari Brims, er komin á veiðar á ný eftir fyrstu löndun ársins í Reykjavík en aflinn var um 180 tonn. Eiríkur Jónsson, skipstjóri, segir í frétt á vefsíðu fyrirtækisins að það hafi verið mokveiði í Víkurálnum og ágætt kropp út af Reykjanesi.
„Við byrjuðum veiðar í Víkurálnum og tókum þar þorskskammtinn okkar, 100 tonn, á stuttum tíma. Það var mokveiði og sem betur fer heldur gullkarfinn sig aðallega norðar. Þar er allt vaðandi í karfa,” segir Eiríkur en eftir að þorskskammtinum var náð var haldið suður.
„Það var ágætis ufsakroppp á Tánniog alls náðum við í um 27 tonn af ufsa. Svo vorum við í blönduðum afla á Reykjanesgrunni og það eina sem spillti fyrir var veðrið,“ segir Eiríkur en hann segir aflann í veiðiferðinni hafa verið nokkuð blandaðan. Mest hafi verið af þorski, svo karfa og ufsa en síðan hafi fengist nokkur tonn af ýmsum öðrum tegundum. Þorskurinn hafi verið vænn eða rúmlega fjögur kíló að jafnaði.
Eiríkur er bjartsýnn á árið miðað við þessa byrjun.
„Mér líst vel á nýja árið, sérstaklega ef veðrið fer að lagast. Vestfjarðamið eru búin að vera lokuð vegna veðurs í nokkra daga. Ég kvíði ekki aflabrögðum,“ segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK.

Deila: