Uppbygging háskólanáms í fiskeldi fær styrk

Deila:

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur tilkynnt um úthlutun til samstarverkefna háskóla, samtals að fjárhæð 1,2 milljarðar króna. Meðal þeirra verkefna sem fá úthlutun er þróun háskólnáms í fiskeldi.
Að verkefninu standa Háskólinn á Hólum, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólasetur Vestfjarða og fleiri og fékk það úthlutað 58 milljónum króna til að bjóða BS og MS nám í eldi, ræktun og nýtingu sjávar og vatnalífvera, samhliða ramræmdum rannsóknum og rannsóknainnviðum. Náminu er ætlað að skila öflugu fagfólki til starfa og nýsköpunar á þessu ört vaxandi sviði matvælaframleiðslu.
„Verkefnið mun stuðla að forystuhlutverki Íslands í sjálfbæru lagareldi og tekur fullt mið af opnberum stefnum um sjálfbærni, loftslagsmál og lífræðilega fjölbreytni,“ segir í lýsingu ráðuneytisins á verkefninu.
Líkt og fram kom í frétt hér á Auðlindinni fyrr í vikunni undirbýr Menntaskólinn á Ísafirði braut á framhaldsskólastigi þar sem áhersla verður á fiskeldi. Fiskeldisskóli Íslands býður einnig eins árs nám í faggreinum fiskeldis og á Hólum er í dag boðið upp á diplómanám í fiskeldisfræði og MS nám í fiskieldisfræði. Samtarfsverkefni háskólanna er því enn eitt skref í þróun náms í fiskeldisgreininni í takt við vöxt hennar.

 

Deila: