Kallar eftir endurbótum á Sauðárkrókshöfn

Deila:

Ásbjörn Friðbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK Seafood.

Höfnin forsenda samkeppnishæfni
„Ef hún er ekki samkeppnishæf við aðrar helstu hafnir landsins getum við aldrei orðið það heldur. Ekki bara við í FISK Seafood heldur við í Skagafirði. Sem betur fer virðist þokkalegur hljómgrunnur vera fyrir þessari brýnu þörf hjá fjárveitingarvaldinu og vonandi er að ríkið og sveitarfélagið taki tafarlaust saman höndum um þessa löngu tímabæru uppbyggingu nýrrar hafnaraðstöðu.
Orkuskiptin og aðrir umhverfisþættir kalla af ýmsum ástæðum á stærri fiskiskip. Ein þeirra er sú einfalda staðreynd að vistvænt eldsneyti tekur þrefalt meira pláss um borð heldur en olían. Án þess að nútímavæða innviðina, þ.e. að dýpka og stækka höfnina, mun flotinn úreldast og stöðugt stækkandi flutningaskip og skemmtiferðaskip eiga erfiðara með að athafna sig. Eða geta það hreinlega ekki. Um leið er samkeppnishæfni okkar í Skagafirðinum ógnað. Við viljum hafa öfluga inn- og útflutningshöfn. Við viljum fá til okkar stærri skemmtiferðaskip og um leið fleiri ferðamenn til þess að sækja okkur heim. Þá er eins gott að aðstaðan okkar verði ekki á næstu árum nánast orðin að gamaldags bryggju sem stenst nýjum kröfum nýrra tíma engan veginn snúning.
Mörgum kann að finnast þetta stór orð en þau eru engu að síður staðreynd. Um leið og ákvörðun hefur verið tekin um endurbætur mun FISK Seafood einnig bretta upp ermar í stórhuga umbótaverkefnum á Eyrinni. Fyrirhuguð nýbygging hátæknifrystihúss er þar fremst í flokki og það liggur í augum uppi að tilhögun hennar og umfang ræðst talsvert af því hvort fjárveiting fáist til hafnarframkvæmdanna á allra næstu misserum,“ segir Ásbjörn í pistli sínum.

Deila: