Blandaður afli hjá ísfisktogurunum

Deila:

„Við byrjuðum á Papagrunni og síðan var haldið á Stokksnesgrunn. Undir lokin var ætlunin að ná í góðan þorskskammt en þá var komið skítaveður,“ segir Þórhallur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Gullveri NS, á vef Síldrvinnslunnar en 70 tonna afla var landað úr skipinu á Seyðifirði í gær. Áhersla var á ufsaveiði í þessum túr.

Vel hefur gengið í fyrstu túrum ársins hjá Vestmannaeyjatogurunum tveimur, Vesmannaey VE og Bergey VE sem báðir eru í höfn sem stendur. Bæði lönduðu skipin rúmum 70 tonnum í Eyjum eða fullfermi.
Á svn.is segir Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að túrinn hafi byrjað í brælu. „Við byrjuðum á Víkinni. Síðan var farið í Meðallandsbugtina og þaðan á Ingólfshöfðann. Undir lokin var farið í Breiðamerkurdýpi og þar fékkst fínn blandaður afli,“ segir Birgir Þór.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, tekur í svipaðan streng. „ Veiðiferðin hófst á Víkinni. Síðan var reynt á Meðallandsbugt með heldur litlum árangri. Þaðan var haldið á Ingólfshöfðann og síðan restað á Öræfagrunni í ágætu fiskiríi,“ segir Jón.

Á meðfylgjandi mynd er togarinn Gullver við byggju á Seyðisfirði.

Deila: