Heildaraflinn jókst milli ára um 22%

Deila:

Samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands jókst heildarafli á árinu 2022 um 22% samanborið við árið 2021. Hann var 1.418 þúsund tonn í fyrrra og nam uppsjávarafli tveimur þriðju heildaraflans og jókst um 46% milli ára. Aftur á móti dróst botnfiskaflinn saman um 8%.

Uppsjávaraflinn á árinu 2022 skiptist þannig að á land komu 450 þúsund tonn af loðnu, 192 þúsund tonn af kolmunna og 184 þúsund tonn af síld. Af makríl var landað tæplega 130 þúsund tonnum í, lítið eitt minna en árið á undan.

Af botnfiski var landað 434 þúsund tonnum og var þorskafli þar af tæplega 244 þúsund tonn. Það er 10% samdráttur frá árinu 2021. Af ufsa var landað um 62 þúsund tonnum og 57 þúsund tonnum af ýsu. Ýsuaflinn jókst milli ára um 1% en ufsaaflinn um 4%.
Afli í desember síðastliðnum var 48 þúsund tonn og dróst saman 62% minni afli frá  desember 2021. Munar mestu um að uppsjávarafli fór úr 91 þúsund tonnum í desember 2021 í 19 þúsund tonn í desember 2022. Botnfiskafli í mánuðinum var 28 þúsund tonn og dróst saman um 18%. Þar af var þorskaflinn 17,2 þúsund tonn sem er 20% minna en í desember 2021.

Deila: