Þorskurinn gefur sig fyrir vestan

Deila:

Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á ferskfisktogaranum Viðey RE.

„Árið byrjar alveg þokkalega á Vestfjarðamiðum, þótt það hafi oft verið meiri kraftur í veiðunum. Síðasti túr var reyndar góður, fín veiði og blíða allan tímann. Við vorum alls með um 160 tonn og þar af voru ríflega 100 tonn þorskur,“ segir Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE í viðtali á vef Brims hf. Viðey var í höfn í Rykjavík í gær en er farin til veiða á ný eftir löndun.
Viðey hefur farið þrjár veiðiferðir frá áramótum, tvær á Vestfjarðamið og eina á Suðvesturmið.

Hálgerð eyðimerkurganga í byrjun! 
„Fyrsta veiðiferð ársins var reyndar hálfgerð eyðimerkurganga,” segir Jóhannes í viðtalinu. „Við vorum sendir á SV mið og aflinn í þeim tegundum sem við vildum veiða var sáratregur. Það gekk svo mun betur hjá okkur á Vestfjarðamiðum í öðrum túrnum og það var fín veiði í síðasta túr.”
Elli, sem svo er jafnan kallaður, segir að í síðasta túr hafi hann byrjað í Þverálnum og farið svo í svokallaðan Heiðardal. Á báðum stöðum hafi verið mjög góð þorskveiði og þorskurinn verið mjög góður, 3,5 til 4,0 kíló að jafnaði.
„Við enduðum svo á Halanum og reyndum þar að leita að ufsa. Það gekk upp og ofan en það var nóg af þorski alls staðar sem við fórum,“ segir Elli.

Deila: