Nýr framkvæmdastjóri FMS

Deila:

FMS hf., sem rekur fiskmarkaði víða um land og hefur aðalstöðvar í Suðurnesjabæ, hefur ráðið Einar Guðmundsson sem nýjan framkvæmdastjóra félagsins. Hann tekur við starfinu af Ragnari H. Kristjánssyni þann 31. janúar næstkomandi en Ragnar hefur gegnt starfinu í 22 ár.

Einar er fæddur og uppalinn í Bolungarvík á Vestfjörðum og hefur víðtæka reynslu af sjávarútvegi. Hann kemur til FMS úr starfi framkvæmdastjóra hjá Norðanfiski á Akranesi en þar áður var hann framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækisins Hábrúnar í Hnífsdal. Þar áður starfaði hann sem skipstjóri í áratug og rak útgerð ásamt fjölskyldu sinni í Bolungarvík. Þá er hann útskrifaður viðskiptafræðingur úr Háskólanum á Bifröst.
Einar er rúmlega fertugur að aldri og er búsettur í Garðabæ ásamt maka og þremur börnum.

Fram kemur í tilkynningu stjórnar FMS hf. að einnig láti Þórður M. Kristjánsson nú af störfum hjá félaginu að eigin ósk en hann hefur verið skristofustjóri FMS hf. í 22 ár. Í tilkynningunni eru  þeim Ragnari og Þórði þökkuð störf í þágu félagsins.
Deila: