Þúsundum tonna af kolmunna landað fyrir austan

Deila:

Þúsundum tonna af kolmunna er nú landað á Austfjarðahöfnum en mjög góð veiði hefur verið á miðunum suður af Færeyum að undanförnu. Frá löndunum í verksmiðjur Síldarvinnslunnar er sagt á ve fyrirtækisins en Hákon EA landaði 1.600 tonnum á Seyðisfirði í gær og síðdegis í gær kom Beitir NK til Neskaupstaðar með 3.000 tonn. Bæði Barði NK og Börkur NK eru á landleið með góðan afla, Barði með 2.100 tonn og Börkur með 3.000 tonn. Aflann fékk Beitir í átta holum en Börkur í níu holum, að því er fram kemur í umfjölluninni. Best er kolmunnaveiðin á nóttunni.

„Algengt var að fá 350–450 tonn í holi en stærsta holið var 500 tonn. Það var í reynd hálfgerð bræla allan túrinn og ljóst er að við fáum bölvaða brælu á móti á landleiðinni,“ segir Hálfdan Hálfdánarson, skipstjóri á Berki NK. „Kolmunnaveiðin hefur að undanförnu farið fram á tveimur svæðum. Flest skipanna voru á því svæði sem mest hefur verið veitt á eða nærri skosku lögsögunni, en við ásamt Beiti og tveimur eða þremur öðrum skipum höfum verið við svonefnt Ræsi sem er um 40 mílur suðvestur af Færeyjum. Það var ágætis veiði á báðum þessum svæðum. Hin góða veiði hefur gert það að verkum að í Færeyjum er töluverð löndunarbið og því hafa ekki mörg færeysk skip verið að veiðum síðustu daga. Kolmunnaveiðarnar hafa farið mjög vel af stað nú eftir áramótin og ekki hægt að vera annað en bjartsýnn hvað framhaldið varðar,“ segir Hálfdan.

Meðfylgjandi er skemmtileg mynd Helga Freys Ólasonar af vef Síldarvinnslunnar af góðu kolmunnaholi hjá uppsjávarskipinu Barða NK.

Deila: