Forseti Íslands í björgunaraðgerðum á Halamiðum

Deila:

Varðskipið Freyja kom til Akureyrar snemma í morgun eftir siglingu frá Halamiðum þar sem skipið aðstoðaði togarann Hrafn Sveinbjarnarson GK sem varð vélarvana um tíma. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var um borð í Freyju en upphaflega var ætlunin að hann ásamt fulltrúum Landhelgisgæslunnar yrðu viðstaddir minningarathöfn um helgina á Patreksfirði í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá mannskæðum krapaflóðum í bænum. Þegar Freyja var á leið frá Reykjavík til Patreksfjarðar barst neyðarkallið frá Hrafni Sveinbjarnarsyni GK og var þá stefnan samstundis tekin á Halamið.
Vel gekk að ná skipinu í tog og var ætlunin að draga það til Ísafjarðar en þá tókst að koma vélum skipsins í gang að nýju. Þá var ákveðið að togarinn sigldi til Reykjavíkur en Freyja fór til Akureyrar þar sem lagt var að bryggju kl. 07 í morgun.

Grínlaust að vera á ljóss og hita úti á ballarhafi
„Ég hef notið gestrisni og góðvildar Friðriks Höskuldssonar skipherra og áhafnar hans um borð í hinu glæsilega varðskipi okkar Íslendinga,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson í kveðju á Facebook í gærkvöldi.
„Hér náðum við að fylgjast með sigurleik strákanna okkar gegn Brasilíu og þakka ég þeim fyrir skemmtunina síðustu daga. Ekki gekk allt upp en það kemur mót eftir þetta mót. Ég sendi áhöfn Hrafns Sveinbjarnarsonar einnig góðar kveðjur. Það er ekkert grín að vera án ljóss og hita úti á ballarhafi, rétt við ísrönd og fjarri landi en reyndar var þar lygnt og líklega var veður hvergi eins gott í íslenskri lögsögu í dag og úti á Halamiðum. Það var þó lán í óláni.“

Meðfylgjandi eru myndir sem Landhelgisgæslan hefur birt frá þessari ferð Freyjum sem sannarlega þróaðist með öðrum hætti en ætlað var.

Guðni Th. Jóhannesson með skipstjórnendum í brúnni á Freyju.

 

Forsetinn fylgist með aðgerðum.

 

Togarinn Hrafn Sveinbjarnarson siglir á ný fyrir eigin vélarafli.

Deila: