Kæliskápurinn sprakk upp og allt út um allt!

Deila:

Togarasjómenn hafa fengið að kynnast janúarlægðunum síðustu sólarhringa en þrátt fyrir það hefur aflinn verið með ágætum. Frá því er sagt á vef Síldarvinnslunnar að ísfisktogararnir Gullver NS, Vestmanney VE og Bergur VE hafi öll komið með prýðlegan afla þrátt fyrir erfið verður stærstan hluta túra skipanna. Egill Guðni Guðnasson, skipstjóri á Vestmannaey VE, náði fullfermi í sannkölluðum brælutúr, að sögn.

„Við hófum veiðar í Skeiðarárdýpi og á Öræfagrunni en veðrið var svo vitlaust að við fluttum okkur á Ingólfshöfðann. Þaðan var svo flúið í Meðallandsbugtina út af Skaftárósum. Þar var heldur minni alda en vindurinn hins vegar jafn mikill og annars staðar. Um tíma var veðrið alveg snarklikkað og ég sá vindmælirinn fara upp í 35 metra. Þegar mest gekk á var ástandið um borð afar erfitt en það var allt á fleygiferð. Meðal annars sprakk upp kæliskápur hjá kokkinum og allt fór út um allt. Það var heilmikil verkun á elhúsinu eftir ósköpin. Það er verulega notalegt að koma í land að loknum túr sem þessum,“ segir Egill Guðni.

Meðfylgjandi mynd er úr eldhúsinu á Vestmannaey þar sem allt var á tjá og tundri eftir að kæliskápurinn sprakk upp í sjóganginum. Mynd: Valtýr Auðbergsson / svn.is

Deila: