Leyfir sér að vera bjartsýnn á sjómannasamning

Deila:
„Þann 5. janúar var fundur hjá sáttasemjara í stóru samninganefnd sjómanna á fiskiskipum, þar komu saman fulltrúar allra sjómannasamtakanna ásamt fulltrúum SFS. Aðilar beggja megin borðs voru sammála um að nóg væri rætt, gera þyrfti úrslita tilraun um hvort við værum yfirhöfuð að fara að ná saman um kjarasamning, eða hvort lýsa ætti samningaviðræður árangurslausar. Sáttasemjari lagði til að tveir frá hvorum aðila settust niður til þess að taka saman niðurstöður viðræðna og gera úrslita tilraun til að sjá hvort hægt væri að ná saman. Þeirri vinnu lýkur nú í vikunni og hefur samningafundur í stóru nefndinni verið boðaður næstkomandi fimmtudag 26. janúar. Beggja megin borðs vonast menn til að við náum saman, ég leyfi mér að vera bjartsýnn á að það takist,” segir Árni Sverrisson,  nýr formaður félags skipstjórnarmanna í upplýsingapistli formanns til félagsmanna. Í samantektinni rekur hann stöðu kjaramála hjá öðrum hópum innan félagsins, s.s. hjá farmönnum, skipstjórnarmönnum á útsýnisbátum í ferðaþjónustu, félagsmönnum hjá Hafrannsóknastofnun og Landhelgisgæslunni, félagsmönnum í störfum hjá fiskeldisfyrirtækjum og fleirum.
Réttindamenn séu í öllum stöðum í flotanum
„Um áramótin voru mönnunar- og undanþágunefndir lagðar niður og verkefni þeirra færð til Samgöngustofu. Fulltrúar skipstjórnarmanna og vélstjóra hafa alltaf haft fulltrúa í þessum nefndum þar til nú. Áður en Samgöngustofa veitir undanþágu mun verða haft samband við félagið til að athuga hvort við höfum réttindamenn á skrá sem leita atvinnu. Eins og þið vitið, þá leggur félagið mikla áherslu á að allar stöður í flotanum séu mannaðar réttindamönnum, því viljum við benda þeim sem leita eftir plássi á að skrá nöfn sín inná heimasíðuna undir flipanum “Atvinna” en þeir sem ekki vilja að nafn sitt sé birt þar geta haft samband við okkur símleiðis eða sent okkur tölvupóst með sömu upplýsingum og beðið er um á heimasíðunni. Við munum svo láta ykkur vita þannig að þið getið haft samband við viðkomandi útgerð ef áhugi er á starfinu. Við hvetjum ykkur til að nýta þessa þjónustu félagsins,” segir Árni.
Vill að orðið „fiskari“ verði afmáð úr lögum
Árni upplýsir að hann hafi sem formaður Félags skipstjórnarmanna skilað inn umsögn á dögunum um reglugerð um heilbrigði fiskara og bætir við að hann hafi áður lýst yfir að hann muni ekki taka sér það orð í munn.
„Ég átti samtöl við lögfræðing hjá Samgöngustofu og eins í Matvælaráðuneytinu, þar sem ég tjáði andstöðu okkar við þetta orð og að við myndum ekki nota það. Ég hef óskað eftir því að orðið verði afmáð úr lögum um áhafnir skipa og ekki tekið upp í umræddri reglugerð.“
Deila: