Veglegur styrkur til rannsókna á áhrifum mengunarefna

Deila:

Dr. Bettina Scholz starfsmaður BioPol á Skagaströnd hefur, ásamt samstarfsaðilum, hlotið 64,8 milljóna rannsóknastyrk frá Rannsóknasjóði Rannís. Rannsóknin beinist að flókinni blöndu mengunarefna, svonefndra per- og pólýflúoroalkýlefna sem fundist hafa í yfirborðs- og grunnvatni um allan heim og jafnframt í vefjum fiska, fugla og sjávarspendýrum.

„Per- og pólýflúoroalkýlefni (PFAS) eru meðal flókinna blanda mengunarefna sem fundist hafa í yfirborðs- og grunnvatni um allan heim og jafnframt í vefjum fiska, fugla og sjávarspendýrum. Sýnt hefur verið framá að ákveðinn hópur þessara efna veldur truflun í lykilstarfsemi frumna og geta valdið neikvæðum líffræðilegum áhrifum í dýrum og mönnum. Í verkefninu verða lifandi kísilþörungar úr stofnasafni BioPol notaðir til þess að reyna að varpa ljósi á áhrif þessara efna á líf í sjó og hugsanlegar vistfræðilegar hættur sem því tengjast,“ segir um úthlutun til verkefnisins.

Rannsóknaverkefnið er til þriggja ára en innlendir samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum, Hafrannsóknastofnun og Tæknisetur. Erlendir samstarfsaðilar verkefnisins starfa við háskóla og rannsóknastofnanir m.a í Þýskalandi, Austuríki, Portúgal og Noregi.

Deila: