Á öllu von í janúar

Deila:

Frystitogarinn Vigri RE er kominn til löndunar í Reykjavík eftir fyrstu veiðiferð ársins. Aflinn var rúmlega 700 tonn upp úr sjó að verðmæti um 350 milljónir króna. Árni Gunnólfsson, skipstjóri á Vigra segist á vef Brims hf. vera  sáttur, sér í lagi miðað við árstímann. Á öllu megi eiga von í janúar.
„Ég er mjög sáttur við árangurinn, ekki síst vegna árstímans. Í janúar getur maður átt von á öllu. Reyndar var veðrið ágætt framan af veiðiferðinni en upp á síðkastið hefur það verið afleitt og við þurftum tvívegis að leita vars vegna veðurs,“ segir Árni en veiðiferðin byrjaði á Reykjanesgrunni og túrinn náði allt austur fyrir land.

Aðgæsluveiðar vegna ýsunnar!
„Við byrjuðum á að leita að ufsa. Hann hefur verið erfiður við að eiga síðustu vikurnar en við getum ekki kvartað enda vorum við um 240 tonn af ufsa í veiðiferðinni. Við fórum þó mjög víða að þessu sinni,“ segir Árni en meðal hafsvæða sem Vigri fór á voru Austfjarðamið en fátítt er að Reykjavíkurtogararnir fari austur fyrir land.
„Austfirsku togararnir stunda þessi mið og þeir hafa m.a. verið að fá þorsk í Seyðisfjarðardjúpinu. Við fórum þangað en urðum ekki mikið varir við þorsk. Aflinn var mest bland í poka, ufsi, ýsa og karfi. Reyndar er ýsa alls staðar til vanda enda er hún um allan sjó. Þetta voru því aðgæsluveiðar hjá okkur því ekki vildum við fá of mikið af ýsu.”
Vigri fór ekkert á Vestfjarðamið að þessu sinni og eftir að hafa þvælst um Austfjarðamið var aftur haldið á miðin út af Reykjanesi.
„Við reyndum við djúpkarfa í Skerjadjúpinu og eins út af Matthildi. Það er ekki hægt að vera óánægður með djúpkarfaaflann í túrnum. Við vorum með um 100 tonn af djúpkarfa en þann afla fengum við mest í Skerjadjúpi og út af Matthildi en einnig í Litladjúpi fyrir austan. Við urðum varir við gulllax í Skerjadjúpinu en leituðum ekkert sérstaklega að honum enda stóð ekki til að veiða gullax í túrnum,” segir Árni en hann segist hafa endað veiðiferðina á Flugbrautinni SV af Snæfellsnesi. „Þar fengum við ágætan afla, ýsu, ufsa, gullkarfa og þorsk,“ segir Árni í viðtalinu um túrinn.

Deila: