Hörfuðu undan veðri til löndunar í Neskaupstað

Deila:

Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE eru í höfn í Neskaupstað en þangað komu skipin um helgina með fullfermi. Aflann fengu þau á aðeins sólarhring undan Ingólfshöfða, samkvæmt frásögn á vef Síldarvinnslunnar.
Skipstjórarnir, Bergur Þór Sverrisson á Vestmannaey og Ragnar Waage Pálmason á Bergi, voru ánægðir með veiðiferðina. Í viðtali við skipstjórana, þá Birgi Þór Sverrisson á Vestmannaey og Ragnar Waage Pálmason á Bergi segja þeir að tækifæri hafi gefist til veiða í stuttan tíma meðan veður gekk niður. „Veðrið var hundleiðinlegt en það var smágluggi á Ingólfshöfðanum og túrinn gekk í reyndinni alveg frábærlega upp. Aflinn er þorskur og ýsa, fínasti vertíðarfiskur,“ segir Birgir Þór í viðtalinu.
Ragnar segir að bæði skip hafi lagt af stað til heimahafnar eða Þorlákshafnar en mönnum hafi ekki litist á blikuna. „Veðrið var kolvitlaust og eftir að hafa siglt í eina þrjá tíma var skipunum snúið við og haldið til Neskaupstaðar. Það var hagstæðara að landa þar upp á að koma fisknum frá okkur.“

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar segir að gert sé ráð fyrir að skipin bíði af sér veðrið í Neskaupstað og haldi til veiða á ný á miðvikudagskvöld. Meðfylgjandi mynd af togurunum tók Smári Geirsson.

Deila: