Vestfirðingar jákvæðir í garð fiskeldis

Deila:

Sjötíu og fimm prósent Vestfirðinga eru frekar eða mjög sammála þeirri fullyrðingu að fiskeldi snúi byggðaþróun úr vörn í sókn. Þetta kemur meðal annars fram í niðurstöðum nýrrar könnunar Vestfjarðastofu á viðhorfi Vestfirðinga til ýmissa þátta sem snúa að fiskeldi og samgöngumálum. Könnunin var unnin af Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri.

Jákvæðnin minni en 2020
Könnunin var send til allra einstaklinga með lögheimili á Vestfjörðum, sem voru alls 4953 þegar hún var send út í september síðastliðnum. Gefinn var svartími til 9. nóvember og bárust 525 svör. Í samantekt Vestfjarðastofu segir að niðurstöðurnar sýni að dregið hafi úr jákvæðni miðað við svör í sambærilegri könnun árið 2020 þegar þátttakendur voru spurðir hversu jákvæðir eða neikvæðir þeir væru á fiskeldi á sínu svæði, á heildina litið. Haustið 2020 reyndust 81% frekar eða mjög jákvæðir en í þessari könnun, haustið 2022, var hlutfallið 67%.
Rúmlega helmingur svarenda er mjög sammála þeirri fullyrðingu að fiskeldi bæti búsetuskilyrði og tæplega 70% telja fiskeldi skapa miklar tekjur fyrir viðkomandi sveitarfélög. Svipað hlutfall, um og yfir 70% voru frekar eða mjög sammála fullyrðingum á borð við hvort fiskeldi fylgi mörg afleidd störf, að þjónustustig hækki samfara fiskeldi, að fjölbreytni starfa aukist með tilkomu fiskeldis og að fiskeldi efli fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum.
Deifing svara var meiri þegar kom að t.d. fullyrðingunni um að fiskeldi fylgi neikvæð sjónræn mengun. Þeirri fullyrðingu sögðust 23% hvorki sammála né ósammála og sama hlutfall sagðist mjög sammála. 38% voru þessari fullyrðingu frekar eða mjög ósammála. Rúmlega helmingur svarenda var frekar eða mjög ósammála þeirri fullyrðingu að sjónræn áhrif fiskeldis séu neikvæð fyrir ferðaþjónustu.
Fullyrðingu um að fiskeldi sé umhverfsivæn matvælaframleiðsla með lítið kolefnisspor sögðust tæplega 30% hvorki sammála né ósammála.

Deila: