Nemendur Sjávarútvegsskólans heimsóttu Loðnuvinnsluna

Deila:

Síðastliðinn mánudag heimsóttu níu nemendur Sjávarútvegssskóla UNESCO Loðnuvinnsluna á Fáskrúðsfirði og með þeim í för voru Hörður Sævaldsson lektor og Hreiðar Þór Valtýsson dósent við auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Tilgangur heimsóknarinnar var kynna sér starfsemi Loðnuvinnslunnar en gestirnir eiga það sameiginlegt að vera starfandi ýmist í sjávarútvegsráðuneytum eða fiskistofum þeirra landa sem þau eru fulltrúar fyrir. Nemendurnir koma víða að, t.d. frá Namibíu, Sierra Lione, Kenía, Grænhöfðaeyjum,  Líberíu og El Salvador.

Á vef Loðnuvinnslunnar er sagt frá heimsókninni og segir Hörður í í viðtali að það sé dýrmætt fyrir auðlindadeild Háskólans á Akureyri sem annast kennslu fyrir Sjávarútvegskólann að hafa samvinnufús sjávarútvegsfyrirtæki hér á landi. „Það er ekkert sjálfgefið að fólk gefi sér tíma til þess að taka á móti hópum eins og okkur og við kunnum afar vel að meta það,“ segir Hörður.

Rekstur Sjávarútvegsskólans er hluti af þróunarframlagi Íslands sem þýðir að þeir sem sækja námið koma frá löndum sem eru ekki eins framarlega í tækni og búnaði eins og sjávarútvegur á Íslandi. Nemendur eru sérfræðingar í sínum sviðum og stór þáttur námsins er að koma auga á þætti innan vinnslunnar sem þau geta tekið með sér heim og aðlagað að því sem þar er fyrir.

Frábær heimsókn
Loðnuvinnslan bauð gestunum fyrst í matarmikla sjávarréttasúpu á Café Sumarlínu og að því loknu var þeim fylgt í gegn um vinnsluna í Fram þar sem uppsjávarfrystihús fyrirtækisins er til húsa. Þar er tæknin við völd og allt gert til þess að hámarka gæði. Síðan var kynning á starfseminni þar sem farið var yfir rekstur og eignarhald.

Hörður sagði að nemendurnir hafi verið alsælir með heimsóknina, þau kunnu vel að meta súpuna góðu, framreidda úr besta mögulega sjávarfangi og ekki síður með móttökurnar hjá stjórnendum Loðnuvinnslunnar.
„Þetta var frábær heimsókn“ sagði Hörður „það var gaman og áhugavert að heyra sögu fyrirtækisins og það sköpuðust skemmtilegar umræður í hópnum, ekki síst eftir að heimsókninni var lokið“. Og Hörður sagði frá því að sú staðreynd að Loðnuvinnslan sé í eigu Kaupfélags, sem er síðan í eigu heimamanna, hafi vakið virkilega mikinn áhuga hjá fólkinu.

Eftir að hafa heimsótt fleiri sjávarútvegsfyrirtæki í Fjarðabyggð var för hópsins heitið  á Sjóminjasafnið á Eskifirði enda sagði Hörður mikilvægt að skoða fortíðina.

 

 

Deila: