Barði með 1000 tonn af kolmunna

Deila:

Snemma í morgun kom lagðist uppsjávarskipið Barði NK að bryggju í Neskaupstað eftir viku langa veiðiferð á kolmunnamiðunum suður af Færeyjum. Skipið landar um 1000 tonnum. Í viðtali á vef Síldarvinnslunnar segir Þorkell Pétursson skipstjóri að veiðarnar hafi gengið vel.

„Við vorum fimm daga að veiðum og það voru tekin fimm hol. Yfirleitt var dregið í um tuttugu tíma og aflinn var frá 130 – 230 tonn í holi. Þetta var hinn sæmilegasti fiskur sem þarna var á ferðinni. Stundum lóðaði mjög vel en fiskurinn skilaði sér afar misjafnlega í veiðarfærið. Veitt var suðaustur af Færeyjum við miðlínuna á milli Færeyja og Hjaltlandseyja. Það var kaldi allan tímann en þó gátum við alltaf verið að. Þarna voru einungis tvö íslensk skip, við og Guðrún Þorkelsdóttir SU. Síðan voru þarna nokkur færeysk skip. Hoffell SU var síðan við Rockall og þar var mikill kolmunni á ferðinni norður eftir. Ég heyrði í skipstjóra sem sagðist aldrei hafa séð viðlíka magn og hann er búinn að veiða þarna í tuttugu ár. Það lítur því vel út með kolmunnaveiðina á næstunni,“ segir Þorkell.

Deila: