Góðviðri er fréttnæmt!

Deila:

Tíðarfarið að undanförnu hefur á flestum miðum við landið verið með þeim hætti að sjómenn telja það meira en lítið fréttnæmt að fá gott verður dag og dag. Í samtali við Steinþór Hálfdanarson, skipstjóra á Gullveri NS, á vef Síldarvinnslunnar segir hann að þrir góðviðrisdagar í síðasta túr teljist stórtíðindi. Togarinn kom til löndunar á Seyðisfirði í gær.
Það er óskaplegur munur að fá daga eins og þessa. Menn eru orðnir býsna þreyttir á lægðaganginum sem hefur verið nánast samfelldur síðan í desember. Það hefur varla verið upprof. Við þurftum að fara inn til Neskaupstaðar 15. febrúar vegna þess að það slitnaði hjá okkur togvír. Þá lönduðum við 40 tonnum. Nú er aflinn 93 tonn og er hann að mestu þorskur og karfi. Við byrjuðum í Lónsdýpinu og á Papagrunni en vorum síðan á Breiðdalsgrunni og Fætinum. Það verður farið út í kvöld á ný og verður það síðasti túr fyrir togararall. Gullver mun taka þátt í rallinu og á það að hefjast 1. mars,“ segir Steinþór.

Á meðfylgjandi mynd er Gullver á leið í veiðitúr. Mynd: Ómar Bogason

Deila: