Brim hagnaðist um rúma 11 milljarða

Deila:

Brim kynnti í gær afkomu ársins 2022 en aðalfundur félagsins verður haldinn þann 23. mars næstkomandi. Félagið hagnaðist um 11,3 milljarða króna á árinu en tekjur þess voru 64,2 milljarðar. EBITDA var 16,8 milljarðar króna. Skuldir og eigið fé voru í árslok samtals 142,8 milljarðar króna.

Gott ár að baki en óvissa framundan
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims segir í tilkynningu að reksturinn hafi gengið vel í fyrra.
„Loðnuveiðar gengu vel og veiddist mikið magn. Af bolfiski var veitt 8 þúsund tonnum minna en árið áður. Erlendir markaðir fyrir sjávarafurðir Brims voru hagstæðir, verð góð og gekk sala á afurðum vel.
Brim hefur haldið áfram að fjárfesta eftir stefnu sem var mörkuð árið 2018, þ.e. að fjárfesta í veiðiheimildum, skipum, tækni og búnaði, og markaðs og sölustarfi.
Í dag er óvissa. Í Evrópu er stríð og verðbólga og vinnudeilur eru hér á Íslandi og undirbúningur er í gangi að nýjum lögum um stjórn fiskveiða. Brim mun því fara varlega í öllum mikilvægum ákvörðunum á næstu mánuðum.“

Mikil aukning uppsjávarfisks í fyrra
Á árinu 2022 var afli skipa félagsins 43 þúsund tonn af botnfiski og 151 þúsund tonn af uppsjávarfiski samanborið við tæp 51 þúsund tonn af botnfiski árið áður og tæp 96 þúsund tonn af uppsjávarfiski. Skipastóll samstæðunnar var 10 skip í árslok.
Umtalsverður niðurskurður var á botnfiskheimildum Brims á yfirstandandi kvótaári eða sem nemur um 6% í þorski, 20% í gullkarfa og 20% í djúpkarfa. Á hinn bóginn var aukning í ýsu nam hins vegar 23%.

Deila: