Loðnuskipin til móts við vestangöngu

Deila:

„Við höfum ekkert séð af loðnu hér fyrir Norðurlandi á því svæði þar sem Hafrannsóknastofnun mældi göngur á fyrir um 10 dögum. Við höfum núna fregnir frá togurum af loðnu úti fyrir Vestfjörðum og erum á leiðinni þangað. Þetta er dæmigerð vestanganga af loðnu sem er á leiðinni suður með Vestfjörðum,“ segir Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á loðnuskipinu Jóni Kjartanssyni SU, í samtali við Auðlindina nú laust fyrir hádegið. Skipið var þá norður af Horni á vesturleið en Jón Kjartansson SU lét úr höfn á Eskifirði í gærmorgun eftir löndun og hélt til loðnuleitar norður fyrir land.

Sem kunnugt er mældi Hafrannsóknastofnun talsvert magn af loðnu norður af Vestfjörðum og Húnaflóa fyrir skömmu og gaf í kjölfarið út viðbótarkvóta upp á rúm tæp 150 þúsund tonn. Líkt og sagt hefur verið frá var mælst til þess að loðnuskipaflotinn dreifði álaginu á miðunum en veiðin hefur alfarið verið fyrir sunnan land hingað til á vertíðinni. Bræla er nú á miðunum fyrir sunnan land. Ásamt Jóni Kjartanssyni SU er Heimaey VE norður af Horni, Aðalsteinn Jónsson SU og Barði NK úti fyrir Skagafirði, Bjarni Ólafsson AK er norður af Sléttu og í morgun lét Beitir NK úr höfn í Neskaupstað og er á leið norður fyrir land og væntanlega vestur fyrir þangað sem öll skipin stefna nú.

Mikið af loðnu fyrir sunnan land
Grétar lætur vel af loðnuvertíðinni það sem af er. Skipunum hafi gengið mjög vel að veiða í nótina.

„Það er óhemju magn af loðnu fyrir sunnan land og miklu meira en í fyrra. Síðustu sólarhringa hefur stöðugt verið að bæta magnið í við Vestmannaeyjar og á svæðinu þar fyrir vestan en mér þykir líklegt að fremstu loðnugöngur séu nú að nálgast Reykjanes,“ segir Grétar en síðar í dag verða Jón Kjartansson og Heimaey væntanlega komin á þær slóðir út af Vestfjörðum þar sem togararnir hafa orðið varir við loðnugöngur. Aðspurður segist Grétar ekki sjá neina ástæðu til þess að setja sérstakar reglur til að stýra veiðisvæðunum til loka vertíðarinnar.

„Nei, ég sé enga ástæðu til þess. Það er mikið magn fyrir sunnan land og væntanlega er sú loðna sem Hafró mældi á dögunum að ganga hér suður með Vestfjörðum,“ segir Grétar.

Meðfylgjandi mynd var tekin af Jóni Kjartanssyni SU í blíðskaparveðri á Reyðarfirði þegar skipið hélt á miðin í gærmorgun. Mynd: Eskja

 

 

Deila: