Komnir með 500 tonn í Barentshafi

Deila:

Frystitogarinn Örfirisey RE er við veiðar í Barentshafi, í norskri lögsögu. Á vef Brims segir frá því að eftir 13 daga við veiðar hlaupi aflinn á um 500 tonnum af fiski. Haft er eftir Arnari Hauki Ævarssyni skipstjóra, í byrjun vikunnar, að tíðin hafi verið erfið. „Hér hafa verið miklir umhleypingar í og t.a.m. er nú búið að vera brjálað veður í um sólarhring. Mér skilst að veðrið eigi að ganga niður í kvöld en þar til verður lítið um veiði.“

Þegar Brim ræddi við Arnar Hauk voru þeir staddir á Nordkappbanka. Haft er eftir honum að kvótinn sé gefinn út í þorski og megi hlutfall aukaafla vera allt að 30%. Misjafnt sé hve mikið megi veiða af öðrum tegundum en þorski. Þannig megi ufsa- og ýsuaflinn vera allt að 48-49% á meðan karfaaflinn megi ekki fara yfir 20%. Gullna reglan sé sú að þorskur verði alltaf að vera í meirihluta í hverju einasta holi.

Arnar Haukur segir að fiskurinn sé ágætur og að hann sé vel haldinn. Þorskurinn sé yfirleitt þrjú til fjögur kíló. Hann segir hins vegar að á svæðinu sé mikill fjöldi annarra skipa og því margir um hituna. „Hér er fjöldi Rússa auk heimamanna og Færeyinga og eins og gerist þá eru skipstjórnarmenn allra skipa fljótir að bregðast við aflafréttum. Því dregur oftar en ekki hratt úr veiðinni.“ Hann segir að fjögur íslensk skip séu á svæðinu en auk Örfiriseyjar séu það Sólberg ÓF, Björgvin EA og Harðbakur EA.

Gert er ráð fyrir að Örfirisey komi til hafnar 23. mars, á Íslandi.

 

Deila: