Reisa 200 tonna sæeyrnaeldi á Suðurnesjum

Deila:

„Þetta er ein verðmætasta eldistegund í heimi,“ segir Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Sæbýlis ehf., sem vinnur nú að uppbyggingu 200 tonna sæeyrnaeldis á Suðurnesjum. Þegar fram líða stundir stefnir Sæbýli að því að framleiða 1.000 tonn á ári.
Hugmyndin að verkefninu kviknaði sannarlega ekki í gær. Sæbýli ehf. hefur í rúman áratug ræktað upp eigin klakstofn. Það eru helstu verðmæti fyrirtækisins ásamt eldiskerfinu SustanCycleTM sem hefur verið í þróun undanfarin ár, að sögn Sigurðar. Fyrir tíu árum flutti stofnandi fyrirtækisins, Ásgeir Guðnason, til landsins vilt sæeyru af ezo-afbrigði frá Japan. Það er að sögn Sigurðar verðmætasta afbrigði sem í boði er. Sæeyru, sem einnig eru kölluð gliteyru vegna þess hve falleg og glitrandi skelin er sem þau bera, tilheyra flokki sæsnigla sem er stærsta tegund lindýra. Um 100 tegundir sæsnigla eru til í heiminum.

Sigurður útskýrir hvers vegna ræktunin hefst ekki fyrr en rúmlega áratug eftir innflutninginn. „Ræktun getur ekki hafist fyrr en búið er að ala þrjár kynslóðir. Það tekur hverja kynslóð um þrjú ár að verða kynþroska. Núna fyrst höfum við möguleika á að vaxa.“

Skelin er litskrúðug og falleg.

Sæeyru eru afar eftirsóttur matur og m.a. eftirsótt hráefni í sushi og aðra rétti. Kílóverðið á markaði í dag er um rúmar sjö þúsund krónur en snigillinn getur lifað í um tvo sólarhringa án sjávar, hafi hann verður kældur. „Þegar farið er á fínustu sushistaðina í Japan þá eru sæeyru dýrasti rétturinn. Í Frakklandi er þessi sjávarsnigill gjarnan steiktur á pönnu með miklum hvítlauk. Þá er hann settur lifandi á pönnuna,“ útskýrir Sigurður.

Skrifað undir við HS orku
Nýlega flutti Sæbýli alla starfsemi sína til Grindavíkur þar sem eldið á sniglinum verður öll innandyra. Víðast hvar erlendis eru sæeyru ræktuð úti í sjó, þar sem hitastig getur verið breytilegt og utanaðkomandi aðstæður í lífríki sjávarins geta haft áhrif á vöxt og afkomu. Sæbýli skapar sín eigin lokuðu vistkerfi fyrir dýrin, til að lágmarka hættu á að utanaðkomandi þættir spilli framleiðslunni.

Framleiðsla Sæbýlis er í lóðréttum eldiskerfum sem kallast SustainCycleTM. Aðstæður til ræktunar sæeyrna hérlendis eru um margt einstakar. „Við höfum aðgengi að hreinum borholusjó sem við getum hitað upp með jarðvarma og haldið þannig kjörhitastigi í eldiskerfunum, sem er 20 gráður, árið um kring,“ segir Sigurður og bætir við að sæeyrun séu fóðruð með þara og þaramjöli úr Breiðafirði. Óhætt er fyrir vikið að segja að ræktunin verði eins umhverfisvæn og hugsast getur.

Sæeyru þykja lostæti. Á dýrustu sushi-stöðunum í Japan eru þau dýrasti rétturinn.

Nýlega undirrituðu Sæbýli og HS Orka viljayfirlýsingu þess efnis að áframeldisstöð Sæbýlis verði reist í Auðlindagarði HS Orku við Reykjanesvirkjun. „Þá munu skapast möguleikar til að stækka enn frekar ungviðaræktunina,“ segir Sigurður. Stefnt er að því að 200 tonna ársframleiðslu verði náð eftir um fjögur ár. „Núna erum við með aðaláhersluna á ungviðaeldi – það þarf að hlúa vel að ungviðinu. Húsnæðið sem við erum að byggja í Grindavík er hugsað fyrir ungviðaeldi sem getur staðið í framtíðinni undir þúsund tonna árlegri framleiðslu,“ útskýrir hann.

 

 

Stærsti framleiðandinn í Evrópu
Sigurður segir aðspurður að Asíumarkaður sé stærsti markaðurinn fyrir sæeyru en tækifæri séu líka fyrir hendi í Evrópu, andaríkjunum og víðar. „Markaðurinn fyrir þessa tegund hefur verið að vaxa um 15% að jafnaði á ári undanfarin ár,“ segir hann. Yfir 80% sæeyrna eru að sögn Sigurðar framleidd í Asíu. „Það er enginn eins norðarlega og við. Einungis eru tvö til þrjú önnur lítil fyrirtæki í Evrópu sem framleiða sæeyru.“

Lofar góðu
Ljóst er að fyrirtækið er stórhuga og mun stækka hratt. Að baki því standa öflugir bakhjarlar en Eyrir Invest er stærsti hluthafinn. Í eigendahópnum eru líka minni innlendir fjárfestar ásamt stofnendum. Sigurður, sem er líffræðingur að mennt, segir að fullbyggt verði fyrirtækið með um 50 til 80 starfsmenn í fastri vinnu. Þar á meðal eru hátæknistörf en fyrirtækið hefur þegar fiskeldisfræðinga, líffræðinga og tæknimenn í vinnu.

Sigurður Pétursson.

Spurður hvernig viðtökur afurðirnar hafi fengið svarar Sigurður því til að Japanir hafi komið hingað til að prófa, jafnvel þó fyrirtækið stefni á að herja á markaði í Evrópu og Bandaríkjunum. „Þetta er einfaldlega besta afurð sem þeir hafa fengið,“ segir hann hróðugur.

Lífsferill sæeyrna
Sigurður er líffræðingur að mennt. Sóknarfæri kemur ekki að tómum kofanum þegar hann er spurður um lífsferil sæeyrna. Hann segir að mikilvægt sé að halda klakdýrum aðskildum eftir kynjum því kvendýrin gefi frá sér egg en karldýrin svil. „Við notum UV-geisla til að meðhöndla sjóinn fyrir þau dýr sem við viljum undirbúa fyrir klak.

Með UV-meðhöndlun og ljósastýringu upplifa klakdýrin að komið sé sumar og drífa sig í hrygningu. Þá sleppir kvendýrið óhemju magni af hrognum. Við þurfum tiltölulega fá karldýr til að frjóvga hrognin,“ útskýrir hann og heldur áfram. „Hrognin klekjast eftir um 18 klukkustundir og við tekur lirfustig þar sem lirfurnar eru sundlægar. Lirfustigið varir í fimm daga við ákjósanlegt hitastig.“

Hann segir að skelin byrji að myndast strax á lirfustiginu. „Við færum svo lirfurnar inn í botnnámsker en þar byrja dýrin að festa sig við botninn. Fyrst um sinn nærast þau aðeins á náttúrulegum smáþörungum sem koma inn með sjónum en vöxtur þeirra er örvaður með ljósum. Þegar dýrin hafa náð ákveðnu þroskastigi er hægt að fóðra þau með þara eða þurrfóðri sem meðal annars er gert úr íslenskum þara. Heildarferlið, frá hrogni – að markaðsstærð tekur um þrjú ár,“ segir Sigurður.

Viðtalið birtist í nýjustu útgáfu Sóknarfæris

Deila: