Aftenposten biðst afsökunar á grein um Samherjamálefni

Deila:

Fyrir helgi birti norska blaðið Aftenposten afsökunarbeiðni vegna umfjöllunar í útgáfu blaðsins í febrúar. Í greininni voru málefni Samherja í tengslum við Namibíu til umfjöllunar og ýmsar fullyrðingar því tengt voru settar fram sem blaðið hefur nú beðist velvirðingar á. Í afsökunarbeiðni sinni segir Aftenpostien að jafnvægis hafi ekki veirð gætt í framsetningu og frásögn, þeim sem var til umfjöllunar hafi ekki verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri auk þess sem fjöldi rangfærslna hafi verið  í greininni.
„Misbrestur í innri verkferlum Afenposten leiddi til þess að Samherja var ekki gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í greininni um þau atriði sem lutu beint að fyrirtækinu, þvert á þær starfsreglur sem gilda um fjölmiðla,“ segir í yfirlýsingu Aftenposten.
„Greinin hafði að geyma fjölda staðhæfinga og ekki kom nægilega vel fram að umræddar staðhæfingarnar væru einhliða frásögn uppljóstrarans Jóhannesar Stefánssonar af málsatvikum. Það kom heldur ekki fram að málið sé til rannsóknar á Íslandi og að ekki fáist niðurstaða fyrr en því ljúki með endanlegum dómi eða niðurfellingu. Nokkrir einstaklingar hafa stöðu sakbornings en engin ákæra hefur verið gefin út á Íslandi. Hvorki einstaklingar né fyrirtæki samstæðu Samherja eiga aðild að sakamálinu í Namibíu.“

Tímamót í umfjöllun
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sendi starfsmönnum fyrirtækisins bréf síðdegis á föstudaginn þar sem segir afsökunarbeiðni Aftenposten vera tímamót í umfjöllun um málefni Samherja tengd Namibíu. „Þetta er í fyrsta skipti sem virtur fjölmiðill tekur undir þau sjónarmið okkar að einhliða og hlutdrægar frásagnir eigi ekki heima í vandaðri fréttaumfjöllun, eins og við höfum sannarlega fengið að kynnast bæði hér á Íslandi og erlendis,“ segir Þorsteinn Már.

„Það er ánægjulegt að ærlegur, virtur fjölmiðill hafi loksins séð í gegnum þann vef sem búið er að spinna um Samherja og fjalla um af öflugri fjölmiðlasamsteypu hér á Íslandi. Nöfn fjölmiðlanna og þeirra sem þá leiða þarf ég ekki að tilgreina. Það er allt þjóðkunnugt fólk sem nú sætir sakamálarannsókn. Verndari þeirra er æðsti stjórnandi opinbera hlutafélagsins sem mesta aflið hefur. Um það þarf ekki að hafa fleiri orð.

Aftenposten, sem er einn virtasti fjölmiðill Noregs, lét villa um fyrir sér en hafði kjark og burði vandaðs fjölmiðils til þess að leiðrétta rangfærslurnar undanbragðalaust og með áberandi hætti. Að mínu mati er þessi afsökunarbeiðni hjá Aftenposten mikilvægur áfangi fyrir okkur öll. Við höfum staðið þétt saman að vanda og nú bætist okkur óvæntur bandamaður frá Noregi sem tekur undir með okkur. Íslenskir fjölmiðlar notfærðu sér þessa röngu grein úr Aftenposten og byggðu fréttir á henni. Búast má við að þeir birti líka afsökunarbeiðnir fyrr en síðar þótt slík vinnubrögð séu þeim nokkuð framandi,“ segir Þorteinn Már jafnframt í bréfi sínu.

Deila: