Heillaðist strax af fiskeldinu

Deila:

„Ég heillaðist strax af þessari grein, þetta er virkilega skemmtilegt starf,“ segir Helgi Már Guðbjartsson sem starfar hjá Benchmark Genetics. Starfsemi fyrirtækisins er á Suðurnesjum og Suðvesturlandi og starfar Helgi Þór hjá klakfiskstöðinni við Vogavík en þar er einnig hrognahús. Helgi stundar nám í fisktækni við Fisktækniskólann í Grindavík og stefnir að því loknu á nám í fiskeldisfræði við Háskólann á Hólum.

Helgi ólst upp í Njarðvík og hafði í tvo áratugi starfað við húsasmíðar. Jafnan var mikið að gera og ekki óalgengt að unnið væri fram á kvöld. „Þegar ég var kominn með fjölskyldu sá ég fljótt að það gengi ekki upp, ég vildi taka meiri þátt í lífi og starfi barnanna minni og fór því að skima um eftir öðru starfi sem byði upp á fjölskylduvænni vinnutíma,“ segir hann. „Ég kastaði mér út í djúpu laugina, ég var smeykur í fyrstu um að þetta ætti ekki við mig en annað kom á daginn,“ segir hann og bætir við að fljótlega hafi komið í ljós að þetta væri starfsvettvangur sem átti vel við hann.

Framtíðin björt í fiskeldinu
„Ég er virkilega ánægður í þessu starfi, þetta er fjölbreytt og skemmtilegt, andinn góður og mér líður bara mjög vel í þessu,“ segir hann. Hann sá sína framtíð innan greinarinnar og hafði löngun til að auka við þekkingu sína. Hann sótti um nám í Háskólanum á Hólum en skorti grunn og byrjar því á að taka fisktækni við Fisktækniskólann. „Þetta er virkilegt gott nám og kerfið hjá skólanum hentar mér einkar vel. Ég er bullandi ADHD maður og var í vandræðum alla mín skólagöngu, en í Fisktækniskólanum er fyrirkomulagið þannig að kennt er í lotum, það er eitt fag tekið fyrir á nokkrum vikum og svo skipt yfir í annað. Það hentar okkur með athyglisbrestinn mjög vel,“ segir hann.

Helgi, sem er 38 ára, segir að skynsamlegt hafi verið að hella sér út í námið. „Ég myndi ekki fara út í þetta á þessum aldri nema af því ávinningurinn er svo mikill. Framtíðin í fiskeldinu er björt, það er mikill uppgangur og margt að gerast og því um að gera að ná sér í menntun á þessu sviði,“ segir hann og bætir við að kjöraðstæður séu á Íslandi fyrir landeldi, bæði sé fyrir hendi nægt land undir starfsemina og vatn. Hann nefnir að félagið sem hann starfi hjá framleiði 18 þúsund máltíðir fyrir Íslendinga á ári og sé liður í fæðuöryggi þjóðarinnar.

Helgi Þór Guðbjartsson starfar í klakfiskstöðinni við Vogavík sem er í eigu félagsins Benchmark Genetics. Hann stundar nám í fisktækni og stefnir á frekara nám við Háskólann á Hólum.

Viðtalið birtist í nýjustu útgáfu Sóknarfæris.

Deila: