Hrognavinnslan hafin

Deila:

Vinnsla á loðnuhrognum hófst hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað á laugardaginn, að því er fram kemur á vef Sídlarvinnslunnar. Fram kemur að Vilhelm Þorsteinsson EA hafi komið með 3.000 tonn að landi og að mikið af hrognum hafi komið úr farminum. Í kjölfarið hafi verið byrjað að vinna hrogn úr farmi Bjarna Ólafssonar AK, sem hafi komið með 1.600 tonn að landi.

„Mokveiði hefur verið á miðunum fyrir vestan land og er Börkur NK á leiðinni til Neskaupstaðar með um 3.000 tonn þannig að hrognavinnslan heldur áfram af fullum krafti,“ segir á vefnum.

Haft er eftir Geir Sigurpáli Hlöðverssyni, rekstrarstjóra fiskiðjuversins, að hrognavinnslan gangi vel. „Það er rífandi gangur í þessu. Afköstin í kreistingunni eru mjög góð og hér er verið að fínstilla pökkunina og frystinguna. Hrognin líta vel út og þroskinn er 80 – 90 %. Farmarnir sem við erum að fá eru stórir þannig að það reynir verulega á allt kerfið hjá okkur,“ segir Geir Sigurpáll.

Bent er á að hrognin séu verðmætasta afurð loðnuvertíðarinnar.

Deila: