VS-afli í þorski snareykst

Deila:

Samtals hafa 1.890 tonnum af VS-afla í þorski verið landað á fyrstu tveimur tímabilum yfirstandandi fiskveiðiárs. Aukningin frá sama tímabili á síðasta fiskveiðiári er 122%. Landssamband smábátaeigenda greinir frá þessu á vef sínum.

Heimild til að landa VS-afla takmarkast við 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávaraafla. Aflanum er skylt að landa á uppboðsmarkaði. 20% af andvirði skiptist á milli útgerðar og áhafnar. Það sem eftir er fer til Verkaefnasjós sjávarútvegarins, að frádregnum kostnaði og hafnargjöldum.

Samanlagður VS-afli í þorski frá 1. september til 28. febrúar hefur frá 2012 verið á bilinu 440 til 850 tonn. Nú var hann hins vegar 1.890 tonn, eins og fyrr segir.

LS segir að ýmsar skýringar geti verið á þessu. Ein þeirra sé að leyfilegur heildarafli í þorski sé ekki í neinu samræmi við það sem sjómenn upplifi. Þorskur sé út um allan sjó. «Þá kemur jafnframt upp í kollinn að einhver eða einhverjir sjái sér leik á borði og noti þessa tilhliðrun í lögunum til að ná fram meiri hagnaði án þess að ónægar veiðiheimildir kalli eftir því.“

Fram kemur að ef heldur sem horfir gæti VS-afli í þorski endað í fimm þúsund tonnum á fiskveiðiárinu. LS bendir á að það væri tvöfalt meira magn en hefði þurft að bæta við leyfilegan þorskafla strandveiðibáta til að tryggja þeim 48 daga á síðustu vertíð.

Deila: