Fengu líkamsleifar og flugvélabrak í trollið

Deila:

Brak úr flugvél og brot úr höfuðkúpu komu í troll togarans Hrafns Sveinbjörnssonar, þegar skipið var að veiðum um 50 mílur vestur af Reykjanesi á miðvikudag. Vísir sagði fyrst frá. Talið er að brakið sé úr flugvél sem talin er hafa hrapað árið 2008, en leit að flugvél og breskum flugmanni hennar bar á þeim tíma engan árangur.

Á vef RÚV er haft eftir Kristjáni Ólafssyni skipstjóra að brakið hafi komið upp þegar skipið var á togi á Jökuldýpinu. Við hífingu upp á dekk hafi aðskotahlutirnir sést. Fyrst um inn hafi þeir talið að aðeins væri um að ræða brak úr vél. Það var ekki fyrr en síðar, þegar fiskurinn úr pokanum var kominn niður í vinnslu, sem höfuðkúpubrotið fannst.

„Þar verðum við varir við að það kemur einhver taska og líkamspartur sem við teljum að sé partur af höfuðkúpunni. Mönnum bregður ekkert en, jú, þetta er partur af líkama, höfuðkúpubrot. Þetta er tekið til hliðar. Það varð engum sérstaklega um það sko. Það er geymt eftir formerkjum úr landi. Það er tekið strax. Við sjáum að þetta er líkamspartur og sýnum því ákveðna virðingu því þetta var jú maður,“ segir skipstjórinn við RÚV.

Deila: