„Það er allt fullt af ýsu“

Deila:

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE héldu báðir til veiða frá heimahöfn í Vestmannaeyjum sl. föstudag. Skipin lönduðu bæði fullfermi rúmum sólarhring síðar. Á vef Síldarvinnslunnar er rætt við Jón Valgeirsson, skipstjóra á Bergi, sem segir að aflinn sé mest ýsa. Dálítill þorskur komi þó með. „Það er alveg glimrandi veiði og þetta er fallegur fiskur sem fæst. Við vorum að veiðum á Pétursey og Vík en þar höfum við mest verið upp á síðkastið,“ er haft eftir Jóni.

Svipaða sögu segir Birgir Þór Sverisson, skipstjóri á Vestmannaey. Nánast sé vandræðalega mikið af ýsu á ferð. „Við vorum á Pétursey og Vík og aflinn að mestu ýsa. Aflinn þyrfti að vera blandaðri. Það er ekki hægt að kvarta undan veiðinni, það var mokveiði og það liggur vel á strákunum um borð. Á þessum slóðum er mikið af loðnu. Þetta er aðallega kall sem lagstur er á botninn,“ er haft eftir honum.

Bæði skip héldu til veiða á ný að löndun lokinni í gær.

Deila: