Eimskip í samstarf við Landsbjörg

Deila:

Eimskip og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa gert með sér samstarfssamning þar sem Eimskip gerist einn af aðal styrktaraðilum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, með sérstaka áherslu  Þá að styðja við björgunarstarf og forvarnir á sjó og landi. Þetta kemur fram á vef Eimskips.

Þar segir að félögin munu í sameiningu vekja sérstaka athygli á slysavarnaverkefninu Örugg á ferðinni, sem snerti á öllum flötum samgangna og hvetji sérstaklega til aukinnar hjálmanotkunar.

Haft er eftir framkvæmdastjóra Landsbjargar að félagið fagni því að fá Eimskip til liðs við styrktaraðila Landsbjargar. „Stuðningur þeirra við félagið er ómetanlegur í því viðamikla starfi sem Slysavarnafélagið Landsbjörg sinnir. Eimskip hefur látið sig slysavarnamál varða í tugi ára með góðum árangri. Ber þar helst að nefna samstarf þeirra við Kiwanis, þar sem skólabörn hafa fengi hjólreiðahjálma að gjöf. Sameiginleg sýn félagana á mikilvægi forvarna gerir okkur kleift að halda úti enn kraftmeira starfi en ella og í sameiningu orðið enn öflugri í öryggis- og forvarnarmálum, bæði á sjó og á landi.“

Í fréttinni kemur fram að nýjasta björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sigurvin, sem staðsett verður á Siglufirði, hafi komið til landsins í dag um borð í skipi Eimskips. Skipið bíður nú haffæris og mun sigla til Siglufjarðar þar sem tekið verður á móti því með hátíðahöldum þann 25. mars.

Myndin er frá undirritun samningsins.

Deila: