Grá­sleppa kvóta­sett í haust – há­marks­afla­hlut­deild verður 2%

Deila:

Til stendur að leggja fram frumvarp um kvótasetningu grásleppuveiða í lok mars. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. september á þessu ári, verði frumvarpið samþykkt. Grásleppuvertíð þessa árs yrði því síðasta vertíðin þar sem grásleppuveiðar fara fram með núverandi fyrirkomulagi.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í grásleppu, í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, nemi aldrei hærra hlutfalli af heildaraflahlutdeild í grásleppu en 2%.

Fram til þessa hefur stjórn grásleppuleyfa verið háð rétti til veiða og leyfum Fiskistofu. Fram kemur í kynningu á frumvarpinu, sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda í gær, að stjórn grásleppuveiða hafi sætt gagnrýni á undanförnum árum fyrir að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg fyrir þá sem stunda veiðarnar. „ Með frumvarpinu er því lagt til úthluta skipum aflahlutdeild í grásleppu. Megintilgangur frumvarpsins er að auka fyrirsjáanleika við veiðarnar og tryggja betur sjálfbærar og markvissar veiðar.“

Til stendur að lögfesta staðbundin veiðisvæði grásleppu, þau sömu og mælt er fyrir í núgildandi reglugerð um grásleppuveiðar. Í frumvarpinu er mælt fyrir um að hlutdeildarsetja grásleppu og að aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin með tilliti til veiðireynslu á afmörkuðu tímabili. Veiðireynslan verður metin út frá þremur bestu veiðitímabilum af sex, frá árinu 2014 til og með árinu 2019. „Ástæða þess að lagt er til að miða við þrjú bestu veiðitímabilin á þessum sex árum eru að grásleppuveiðar standa yfir í stuttan tíma og frátafir á einni vertíð geta því haft mikið að segja varðandi veiðireynslu það ár. Þá eru aflabrögð misjöfn á milli ára og eftir svæðum. Sá mismunur jafnast út með lengra viðmiðunartímabili. Því er í frumvarpinu litið til lengri viðmiðunartíma og málefnalegra sjónarmiða við úthlutun aflahlutdeildar í grásleppu.“

Fram kemur að frumvarpið kveði á um að framsal aflahlutdeilda í grásleppu og flutningur aflamarks milli staðbundinni veiðisvæða verði óheimilt. Þannig verði tryggt að aflaheimildir hverfi ekki af tilteknum svæðum. Hins vegar geti orðið ákveðin hagræðing innan svæða.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra verði heilmilt að draga 5,3% frá heildarafla grásleppu og úthluta því aflamarki til nýliða til eins árs í senn. Unnt verði að fá úthlutað í nokkur ár í röð og að þeim tíma liðnum hafi viðkomandi útgerð eða sjómanni tekist að kaupa sér aflahlutdeild til grásleppuveiða.

Deila: