Fundu stórufsa á Eldeyjarbankanum

Deila:

Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, fann óvænt vertíðarufsa á Eldeyjarbankanum í lok síðustu viku. Eins og Auðlindin greindi frá í vikunni hefur slíkur fiskur vart sést, þrátt fyrir umtalsverða leit. „Við vorum að fá átta til tólf tonn af fimm til sjö kílóa ufsa í holli – en yfirleitt toguðum við í tvo og hálfan og upp í fjóra og hálfan tíma í senn,“ er haft eftir Heimi á vef Brims.

Þegar fréttin birtist var skipið statt á Belgableyðunni, sunnan við Eldeyjarbankann. Mjög hefur dregið úr ufsaveiðinni. „Við erum að fá um eitt tonn af stórufsa á togtímanum og ætlum að halda okkur á þessum slóðum í von um að ufsaaflinn glæðist aftur,“ segir hann.

Skipið mun landa í Reykjavík á föstudag.

Deila: