Togararallið gekk vel hjá Breka

Deila:

Breki VE hefur lokið sínu  fimmta togararalli Hafrannsóknastofnunnar. Á vef Vinnslustöðvarinnar kemur fram að verkefnið hafi gengið vel. Skipið hafi látið úr höfn að kvöldi 27. febrúar og farið um svæðið vestan- og suðvestan við landið. Afli hafi verið ágætur, aðallega þorskur. Skipið hafi svo landað þann 8. mars en haldið strax til veiða á nýjan leik, þá til veiða sunnan- og suðvestan við landið. Aftur hafi aflabrögð verið ágæt; mest hafi veiðst af ýsu og þorski. Breki landaði í Vestmannaeyjum í gær, miðvikudag, og lauk þar með rallinu.

Togararall hefur verið haldið frá árinu 1985 og gert með sama hætti. Togað er á sömu stöðum ár hvert til að fylgjast með stofnstærð, aldurssamsetningu, fæðu, ástandi og útbreiðslu helstu nytjastofna við landið. Jafnframt er fylgst með hitastigi sjávar, mengandi efnum í sjávarfangi og fleiri þáttum.

Fram kemur að Breki henti afar vel til þessara rannsóknaveiða og samstarfið við Hafró hafi verið afar farsælt fyrir báða aðila.

Í fréttinni er farið yfir gang mála á öðrum sviðum vinnslunnar. Árstíðabundinn sölukippur á saltfiskmörkuðum í Portúgal í aðdraganda páskavertíðarinnar sé fram undan. „Góður gangur er í saltfiskvinnslunni og afköst mikil þrátt fyrir að margir starfsmenn hafi verið færðir á vaktir í vinnslu loðnu og loðnuhrogna á meðan sú vertíð varir. Starfsfólk í saltfiskvinnslunni hefur því átt langa daga í vinnu en þegar nú sér fyrir enda loðnuvertíðar fjölgar starfsmönnum þar á ný. Við getum þá um leið stytt vinnudaginn.“ Unnið verður í saltfiski að fullum krafti fram yfir páska, fram að hrygningarstoppi 12. apríl.

Loks segir að loðnuvertíðin hafi náð hámarki hjá Vinnslustöðinni en gert er ráð fyrir að síðustu loðnufarmarnir komi að landi um næstu helgi. Vinnslu loðnu muni ljúka tveimur sólarhringum síðar. Í uppsjávarvinnslunni hefur verið unnið sleitulaust á vöktum frá 15. febrúar. Engin dæmi eru fyrr um samfellda vinnu svo lengi í loðnuvinnslu hjá VSV.

 

Deila: