Hægt að fá grásleppuleyfi samdægurs

Deila:

Fiskistofa hefur opnað fyrir umsóknir um leyfi til grásleppuveiða. Á vef stofnunarinnar segir að einyrkjar og prókúruhafar sæki um leyfið í gegnum stafrænt umsóknarkerfi á island.is og gildi reglugerð um hrognkelsaveiðar árið 2023 um veiðarnar.

Fiskistofa vekur athygli á því að nú er greitt fyrir leyfið í umsóknarferlinu og því hægt að fá leyfið gefið út samstundis, nema önnur upphafsdagsetning sé valin.

Við gildistöku er leyfið sent í pósthólf viðkomandi á islands.is. Áður þurfti að sækja um með að minnsta kosti dags fyrirvara eða á föstudegi ef hefja átti veiðar á mánudegi.

Hægt er að fá frekari upplýsingar um umsóknarferlið með því að senda tölvupóst á fiskistofa@fiskistofa.is. Einnig skal senda póst á þetta netfang ef breyta á upphafsdagsetningu leyfis.

Deila: