Hyggst endurvekja aðild Íslands að NASCO

Deila:

Íslensk stjórnvöld hyggjast endurvekja aðild Íslands að Laxaverndunarstofnuninni (NASCO). Frá þessu greindi Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra á ráðstefnunni Salmon Summit í gær, fimmtudag. Ráðstefnan fer fram í Reykjavík en það er verndarsjóður villtra laxastofna (NASF) sem stendur að ráðstefnunni.

Fram kemur á vef matvælaráðuneytisins að Laxaverndunarstofnunin hafi verið stofnuð í Reykjavík árið 1984 í þeim tilgangi að stuðla að verndun, uppbyggingu og skynsamlegri nýtingu laxastofna í Norður Atlantshafi. Íslendingar drógu aðild sína að stofnuninni til baka í lok árs 2009 í kjölfar hruns íslenska bankakerfisins.

„Á þessu ári munum við gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gerast fullgildir aðilar að NASCO á ný árið 2024“ sagði matvælaráðaherra á þinginu í dag. „Ég tel mikilvægt, sem eitt af stofnríkjum NASCO, að við séum virk í umræðunni og gerum okkar besta til að efla enn frekar stöðu villtra laxastofna innan okkar vébanda,“ segir Svandís.

Núverandi meðlimir NASCO eru Bandaríkin, Bretland, Danmörk (fyrir Færeyjar og Grænland), Evrópusambandið, Kanada, Noregur og Rússland. Þar að auki eiga yfir 20 hagsmunasamtök áheyrnaraðild að NASCO.

Deila: