Sérhanna kvíar vegna FARICE í Seyðisfirði

Deila:

Fiskeldi Austfjarða hefur látið sérhanna kvíar og botnfestingar í Seyðisfirði vegna nálægðar við FARICE-sæstrenginn. Í frétt á vef RÚV kemur fram að fiskeldið freisti þess nú að ná sátt við Seyðfirðinga um eldisáform í firðinum. Þar er stefnt á 10 þúsund tonna eldi. Fram kemur að mikill meirihluti Seyðfirðinga sé mótfallinn eldinu.

„Við erum búin að láta hanna kvíastæðin bæði í Selsstaðavík og Sörlastaðavík og þau hafa verið hönnuð út frá ströngustu stöðlum. Og út frá þeirra hönnun rúmast stöðvarnar bæði innan svæðisins sem við höfum fengið úthlutað og hönnun er þannig að við erum utan helgunarsvæðis FARICE-strengsins,“ er haft eftir Jens Garðari Helgasyni, aðstoðarforstjóra Fiskeldis Austfjarða.

Í fréttinni er bent á að ein eldisstöðin yrði á snjóflóðahættusvæði. Fiskur gæti sloppið ef snjóflóð félli. Jens segir að í umsókn fyrirtækisins séu sótt um þrjár staðsetningar. Fiskeldið geti valið hinar tvær staðsetningarnar ef hættumat Veðurstofunnar, sem er í vinnslu, leiðir í ljós að hætta sé á ferðum.

Fiskeldi Austfjarða hefur kynnt fyrir íbúunum áformin. Frekari kynning er fyrirhuguð og fyrirtækið hefur fundað með bæði heimastjórn og sveitarstjórn. Talið er að 18 störf verði til, ef eldið verður byggt í firðinum.

Deila: