Olíumengunin sennilega úr skipsflaki

Deila:

Á árunum 2020 til 2021 fundust olílublautir fuglar í Vestmannaeyjum, í Reynisfjöru, í Vík og víða við suðurströndina. Niðurstaða rannsóknar leiðir í ljós að uppruni mengunarinnar sé skipsflak á hafsbotni austan eða suðaustan við Vestmannaeyjar. Þetta kemur fram í skýrslu sem birt er á vef Hafrannsóknastofnunar.

Að beiðni Umhverfisstofnunar var farið í greiningu á reki olíu við suðurströndina á tímabilinu 2020-2022. Ástæðan var talsverður fjöldi olíublautra fugla sem fundist höfðu víðsvegar við strönd suðurlands og í Vestmannaeyjum á þessu tímabili, að því er segir á vef Hafró. Þar segir að notuð hafi verið tölvulíkön frá Veðurstofunni og Copernicus-gagnaþjónustu ESB til að greina áhrif hafstrauma, vinda og sjávaralda á rek agna á yfirborði. Bæði var rekið reiknað aftur í tíma út frá þeim stöðum þar sem olíublautir fuglar fundust, og hermt eftir reki fram í tímann frá mismunandi möguleikum hvað varðar staðsetningu uppruna olíumengunar.

Í skýrslunni segir að niðurstöður bendi til að rekið á yfirborði hafs ráðist af hafstraumum þegar veðurfar er rólegt en vindátt skipti miklu máli í hvassvirði. „Við athugun reks var annars vegar reiknað út rek til baka í tíma frá þekktum fundarstöðum olíublautra fugla og hins vegar rek fram í tíma frá tilteknum uppruna mengunarinnar. Reiknaðir rekferlar frá hafsvæði skammt austan við Vestmannaeyjar eru í áberandi samræmi við athuganir, þar sem olíublautir fuglar fundust í Reynisfjöru og í Vík aðallega eftir suðvestan hvassviðri en í Vestmannaeyjum fundust fuglar frekar í austanáttum og hægviðri.“

Niðurstaðan er að líklegt þyki að uppruna mengunarinnar megi rekja til skipsflak á svæði sem er ein til tólf sjómílur austan eða suðaustan við Vestmannaeyjar. Til þess að greina uppruna með vissu þurfi þó að sjást til olíuflekks á yfirborði og rannsaka skipsflök á svæðinu.

Deila: