Metár í útflutningi eldisafurða

Deila:

Eldisafurðir voru fluttar út fyrir um 49 milljarða króna á árinu 2022. Á föstu gengi er það 39% aukning frá því árið á undan. Þetta kemur fram á Radarnum, mælaborði sjávarútvegarins. Þar segir að afurðaverðshækkanir spili stóra rullu í þessari miklu aukningu. Aukninguna má annars að langstærstum hluta rekja til laxeldis. Útflutningsverðmæti á laxi var um helmingi meira á árinu 2022 en 2021, á föstu gengi. Fram kemur að einnig hafi verið aukning í útflutningsverðmætum frjóvgaðra laxahrogna (28%) en að 15% samdráttur hafi verið í útflutningsverðmætum silungs.

Í umfjöllun Radarsins segir að Bandaríkjamarkaður sé sá stærsti fyrir íslenskar eldisafurðir. Þangað hafi afurðir verið seldar fyrir 10,9 milljarða króna í fyrra. Útflutningsverðmæti eldisafurða til Bandaríkjanna jókst um 50% á milli ára. Holland, Pólland og Danmörk eru hin stærstu viðskiptalönd Íslands þegar kemur að eldisafurðum, samkvæmt upplýsingum Radarsins.

Deila: