Svigrúm til að hækka veiðigjöld

Deila:

„Svigrúm er til að hækka veiðigjöld á stærstu útgerðirnar miðað við þær ríkulega arðgreiðslur sem þær greiða sér vegna nýtingar sameiginlegrar auðlindar.“ Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á Landsfundi VG sem haldinn var á Akureyri um liðna helgi.

Í ályktun um veiðigjöld kemur fram það sjónarmið að stefnumótun matvælaráðherra undir formerkjum Auðlindarinnar okkar, sé stærsta skerf í átt að aukinni sátt um sjávarútveg í langan tíma. Fundurinn hvetur ráðherra til að halda áfram að byggja stefnumótun á grundvelli sjónarmiða sjálfbærrar þróunar, vísinda og þekkingar, eins og það er orðað. „Þannig sé best komið til móts við þá djúpstæðu tilfinningu um óréttlæti sem ríkt hefur um fiskveiðistjórnun Íslendinga um áratugaskeið.“

Hærri auðlindagjöld í fiskeldi

Fundurinn ályktaði einnig um fiskeldi. Þar eru stjórnvöld brýnd til að vinna gagnerar og heildstæðar umbætur í fiskeldismálum og styrkja rannsóknir og eftirlit í greininni. Ánægju er lýst með ákvörðun matvælaráðherra um að óska eftir skýrslum Ríkisendurskoðunar og Boston Cosulting Group til að kafa ofan í stöðu málaflokksins „og búa til grundvöll til að ráðast í nauðsynlegar úrbætur og móta stefnu og byggja þannig upp atvinnugrein sem rekin er á grundvelli sjálfbærni – í sátt við umhverfi, samfélag og efnahag. Hluti af þeirri sátt hlýtur að vera að aukinn hluti af arði fiskeldisfyrirtækjanna renni til almennings í formi auðlindagjalda.“

 

Deila: