Frumvarp um strandveiðar tekið fyrir í þinginu

Deila:

Frumvarp Svandísar Svavarsdóttir matvælaráðherra um strandveiðar er á dagskrá þingsins í dag og verður þar tekið til fyrstu umræðu. Í frumvarpinu felst að aflaheimildum strandveiða verður skipt á milli landssvæða í hlutfalli við fjölda skráðra báta á hverju svæði. Í frumvarpinu felst jafnframt heimild til að flytja ónýttar heimildir á hverju svæði á milli mánaða innan sama fiskveiðiárs.

Með frumvarpinu og fyrirhugaðri lagasetningu er áformað að auka jafnræði milli landsvæða.

Strandveiðar eru heimilar frá 1. maí til 31. ágúst. Strandveiðar voru stöðvaðar 21. júlí í fyrra, þegar aflahemildir voru á þrotum. Þá var besti tími til handfæraveiða fyrir norðan og austan nýlega hafinn. Í frumvarpinu segir:

Þegar horft er til strandveiðitímabilsins maí–ágúst er suðvestursvæðið best fyrri hluta tímabilsins meðan norðaustursvæðið og Austfirðir er best síðari hluta tímabilsins. Komi til þess að strandveiðar séu stöðvaðar bitnar það mest á norðaustur- og austursvæðinu. Það fyrirkomulag sem ákveðið var með gildandi lögum hefur ekki reynst vel þegar litið er til jafnræðissjónarmiða þar sem afnám svæðaskiptingar aflaheimilda við strandveiðar hefur haft neikvæð áhrif á veiðar á Norðaustur- og Austurlandi. 

Svæði A hefur borið áberandi mest úr býtum frá því svæðaskipting strandveiða var afnumin árið 2018.

Deila: