Brim og Yggdrasill í samstarf

Deila:

Brim og Yggdrasill Carbon (YGG) hafa skrifað undir samstarfssamning vegna kolefnisbindingarverkefnis Brims á Vopnafirði. Það verkefni er unnið með Vopnafjarðarhreppi og umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu og á að stuðla að kolefnishlutleysi í sveitarfélaginu.

Fram kemur á vef Brims að YGG sérhæfi sig í framleiðslu vottaðra kolefniseininga með samstarfi við landeigendur, fjármögnunaraðila, fyrirtæki og opinbera aðila sem vilja að kolefnisjöfnun sín skili afleiddum ávinningi í íslenskt efnahagslíf. YGG sé eina fyrirtækið sem hefur fengið verkefni vottað á grundvelli Skógarkolefnisstaðals Skógræktarinnar og sé einnig með verkefni sem eru í vottunarferli hjá Gold Standard.

Á vef Brims segir: „Skógræktarverkefnið á Voppnafirði er eitt af skrefum sem Brim hefur stigið til ábyrgrar auðlindanýtingar og skynsamlegra loftlagsaðgerða en félagið rekur þar öfluga uppsjávarvinnslu. Brim hefur mótað sér umhverfis- og loftlagsstefnu og undirritað sameiginlega stefnu SFS um samfélagsábyrgð. Stefnumörkun félagsins grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.“

Deila: