Fyrstu skemmtiferðaskip ársins

Deila:

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins – ef svo má að orði komast – kom til hafnar í Reykjavík í gær. Skipið heitir Ambience og er í svokallaðri norðurljósaferð. Skipið lagði úr höfn frá London 23. mars, sigldi til Skotlands og þaðan Færeyja áður en það kom til íslands. Í skipinu eru 798 herbergi og það rúmar hátt í 2.000 manns.

RÚV hefur eftir Gunnari Tryggvasyni, hafnarstjóra Faxaflóahafna, að von sé á 270 skipum í sumar. Sumarið muni slá öll fyrri met í fjölda skipa og farþega. Fram kemur í fréttinni að í sumar verði minni skemmtiferðaskip landtengd með rafmagni í fyrsta sinn en einhver ár séu í að stærstu skipin verði landtengd. Gunnar segir að gjaldskráin taki mið af mengun, að norskri fyrirmynd. „Vonandi verður það til þess að skipafélögin velji þá bestu skipin með tilliti til umhverfisáhrifa til að koma til Íslands,“ er haft eftir hafnarstjóranum.

Á morgun, 30. mars kemur skipið Fred Olsen Bolette koma til Reykjavíkur frá Newcastle. Þaðan mun skipið sigla til Akureyrar og svo Seyðisfjarðar en um er að ræða tíu daga siglingu umhverfis Ísland, til Færeyja og aftur til Newcastle. Bolette verður þannig fyrsta skemmtiferðaskip vertíðarinnar á Akureyri og Seyðisfirði.

Til gamans má geta að fram kemur á síðunni að þessi 10 daga ferð kosti frá 340 þúsund krónum á mann, miðað við tveggja manna herbergi. Í skipinu eru 690 herbergi og rúmar það allt að 1.656 farþega. Í áhöfn skipsins eru 615 starfsmenn.

Farþegaskipið Bolette.

Deila: