Markaðsverð á grásleppu 50% hærra en í fyrra

Deila:

Þrátt fyrir að fyrstu fréttir bendi til heldur dræmrar grásleppuveiði, samanborið við síðustu ár, verður ekki annað sagt en að þeir sjómenn sem landa á markað hafi fengið gott verð fyrir aflann. Samkvæmt Reiknistofu fiskmarkaða hefur 53,7 tonnum verið landað á markað. Meðalverð þess afla hefur verið 489,92 krónur. Grásleppukarlar hafa því fengið 26,3 milljónir fyrir þessi tonn.

Til gamans má geta að sama verð hefur fengist fyrir þorsk, að jafnaði, síðastliðna tíu daga; eða rúmar 490 krónur á kíló.

Á vef Landssambands smábátaeigenda er þessu fagnað. Þar er bent á að meðalverð fyrstu vikunnar á mörkuðum í fyrra hafi verið 324 krónur en í hitteðfyrra 222 krónur. Þetta þýðir að hækkunin, þegar horft er á fyrstu daga vertíðarinnar, er rúm 50% frá því í fyrra. Hafa skal í hug að ekki er víst að verðið haldist svona hátt þegar framboð á grásleppuafla eykst.

LS bendir á að kaupendur á mörkuðum selji grásleppuhrogn fersk til Danmerkur en einnig sé eitthvað um að kaupaendur frysti hrogn sem eiga að fara á aðra markaði.

Deila: