Rannsökuðu ástand sjávar

Deila:

Daganna 8. til 20. febrúar var rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson í rannsóknarleiðangri umhverfis landið, þar sem sjórinn var hitamældur. Þetta kemur fram á vef Hafró. Leiðangurinn var hluti af verkefninu „Ástand sjávar”, þar sem fylgist er með breytingum á umhverfisaðstæðum á Íslandsmiðum. Markmið hans var að safna gögnum um hita og seltu á ákveðnum stöðum á landgrunninu. Þetta er hluti af mælingum sem hafa farið fram á Íslandi frá 1950.

Niðurstöður mælinganna benda til þess að sjávarhiti í efstu 200 metrum sjávar í hlýsjónum úti fyrir Suður- og Vesturlandi hafi verið á bilinu 7,1-8,2°C, sem er vel yfir meðaltali viðmiðunartímabilsins 1991-2020. Seltan var undir meðaltali viðmiðunartímabilsins, en hún hefur farið hægt vaxandi undanfarin ár.

Hiti og selta úti fyrir Norðurlandi voru nálægt meðaltali viðmiðunartímabilsins 1991-2020, en hiti í efri lögum úti fyrir Norðurlandi var á bilinu 2-4°C. Bæði hiti og selta hefur aukist lítillega miðað við seinustu þrjú ár.

Norðaustan- og austanlands var hiti á bilinu 0-3°C í efstu lögum sjávarins, bæði yfir landgrunninu og utan þess. Það er nærri meðallagi viðmiðunartímabilsins fyrir þennan árstíma, en selta á þessu svæði var töluvert lægri en meðalselta viðmiðunartímabilsins.

Myndin sýnir niðurstöður mælinga. Punktarnir á myndinni sýna hvar hitastig var mælt.

Markmið verkefnisins er að fylgjast með breytingum á umhverfisaðstæðum á Íslandsmiðum.

Deila: