Besta ár í sögu Vinnslustöðvarinnar

Deila:

Afkoma Vinnslustöðvarinnar á árinu 2022 var sú besta sem um getur í sögu fyrirtækisins þrátt fyrir að loðnuvertíðin hafi ekki gengið eins vel og menn væntu, aðallega vegna óhagstæðs tíðarfars. Nær allar einingar VSV-samstæðunnar voru reknar með hagnaði. Þetta kom fram á ársfundi Vinnslustöðvarinnar 30. mars síðastliðinn.

Þar segir að samstæðan, sem gerir upp í evrum, hafi árið 2022 numið 193 milljónum evra. Það jafngildir 27,6 milljörðum króna. Hagnaður samstæðunnar jafngildi 2,7 milljörðum króna.

Fram kemur á vef Vinnslustöðvarinnar að árið 2023 hafi farið vel af stað. Nýafstaðin loðnuvertíð hafi erið ein sú besta frá upphafi þegar litið er til veðurs, veiða og framleiðslui. Þá gangi sala lýsis og mjöls afar vel og sala frystrar loðnu sömuleiðis.

„Hins vegar eru blikur á lofti varðandi sölu og afurðaverð loðnuhrogna. Afleiðingar tveggja loðnuleysisára, þegar að sjálfsögðu ekkert var framleitt, eru þær að markaðir fyrir loðnuhrogn hafa skroppið verulega saman. Það mun taka tíma að endurheimta þá. Af sjálfu leiðir að sala loðnuhrognaframleiðslu ársins mun taka lengri tíma en áður hefur þekkst.”

Í fréttinni kemr fram að ákveðið hafi verið að fresta boðuðum áformum um nýtt átta þúsund fermetra botnfiskvinnsluhús. Það er gert í varúðarskyni vegna alþjóðlegs óvissuástands í efnahagsmálum, eins og það er orðað.

Í fréttinni kemur fram að ársfundurinn hafi samþykkt að greiða hluthöfum þrjár milljónir evra í arð, eða 445 milljónir króna. „Þetta er helmingi minni arður en hluthafar fengu greiddan í fyrra. Í samþykkt ársfundarins nú er kveðið á um heimild til handa stjórn félagsins að minnka arðinn eða hætta alveg við að greiða hann út í haust ef horfur í rekstri og starfsumhverfi þykja svo óvissar eða dökkar að arðgreiðslur séu ekki réttlætanlegar.”

Deila: