Svipt veiðileyfi fyrir að skila ekki aflaupplýsingum

Deila:

Emilía AK hefur verið svipt veiðileyfi í atvinnuskyni í 28 daga fyrir að hafa ítrekað vanrækt að skila aflaupplýsingum til Fiskistofu. Aflaupplýsingum var ekki skilað í 56 skipti auk þess sem þeim var skilað of seint í 9 skipti.

Fram kemur í ákvörðun Fiskistofu að málsaðili hafi meðal annars vísað til þess í samtölum við Fiskistofu að notkun farsíma við stjórn skipa væri óheimil. Á þá afsökun fellst Fiskistofa ekki, enda sé það ekki bannað. Fram kemur í ákvörðuninni að skipstjóri hafi með þessu hátterni verið að spara útgerðinni kostnaðinn af skilunum. Hann hafi sparað allt að 114.800 krónur með athæfinu.

Í niðurstöðu og rökstuðningi segir að málsaðili hafi tjáð starfsmanni Fiskistofu að það væri prinsipp mál að skila ekki aflaupplýsingum til Fiskistofu. Umrædd skil tækju allt of langan tíma og væru bara bull. Fiskistofa ætti þess í stað að hrósa honum og láta hann afskiptalausan með sitt.

Emilía AK er línu- og handfærabátur og er gerður út frá Akranesi. Hann er á grásleppuveiðum þessa dagana.

Sviptingin gildir frá 20. apríl til 17. maí.

 

Deila: