Þrír nemendur hlutu námsstyrki

Deila:

Kristín Pétursdóttir, Hreinn Óttar Guðlaugsson og Dominique Baring hlutu fyrir helgi námsstyrkji fyrir árið 2023 úr menntasjóði Íslensku sjávarútvegsverðlaunanna en IceFish 2024-sýningin verður haldin í Smáranum í september á næsta ári. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í íslenska sjávarklasanum á föstudag.

Styrkirnir hafa verið veittir frá árinu 2017 en í kjölfar sjávarútvegssýningarinnar 2014 gerðu forsvarsmenn sýningarnarinnar sér grein fyrir nauðsyn þess að fjárfesta í framtíð sjávarútvegarins á Íslandi. Þeir settu á stofn menntasjóð til að veita námsstyrki til efnilegra nema innan geirans.

Á þriðja tug nemenda sótti um styrk að þessu sinni. Hver þeirra hlýtur 300 þúsund króna styrk til hvatningar til áframhaldandi náms.

Kristín leggur stund á nám í fiskeldi en í tilkynningu er haft eftir henni: „Styrkurinn felur í sér mikla viðurkenningu í mínum huga og ég er
afskaplega þakklát og ánægð fyrir að hafa hlotið hann, sem ég bjóst alls ekki við fyrirfram. Það er ýmis kostnaður samfara náminu og ef maður missir úr vinnu hjálpar styrkurinn til að draga mann í land ef svo má segja. Ég vinn núna sem verkstjóri hjá Matorku í fiskeldi á landi og ég hugsa að framtíð mín verði á því sviði. Fiskeldisnámið í Fisktækniskóla Grindavíkur veitir mér kost á að öðlast þekkingu á þeirri starfsemi frá A til Ö og vinna mig áfram upp. Styrkurinn hjálpar þannig einnig til að fá stærri og betri tækifæri í greininni.”

Hreinn Óttar leggur stund á nám í Marel-fisktækni: „Ég er í Marel-tækninámi sem mun veita mér kost á frekari menntun og betri störfum, og styrkurinn felur tvímælalaust í sér hvatningu og stuðning við framhaldið. Ég hef líka mikinn áhuga á vélum og vélbúnaði, hef það frá föður mínum sem er sérfræðingur á sviði Baader-véla. Ég hef ekki getað unnið á meðan ég einbeiti mér að náminu og styrkurinn hjálpar heilmikið til að bæta fjárhaginn og styðja mig í áframhaldandi nám.”

Dominique leggur stund á nám í gæðastjórnun og fiskeldi: „Ég er afskaplega ánægður og þakklátur með að hafa fengið IceFish- styrkinn. Hann er ekki aðeins mikilvæg viðurkenning, heldur hjálpar mér fjárhagslega, felur í sér hvatningu og veitir mér stuðning til að geta haldið áfram í námi. Ég get nýtt mér hann núna þegar ég tek næstu skref í menntun, en ég hyggst leggja stund á sjávarútvegsfræði í
Háskólanum á Akureyri.”

Deila: