Kjarnorkuknúnir kafbátar við Íslandsstrendur

Deila:

Utanríkisráðherra hefur tilkynnt stjórnvöldum í Bandaríkjunum að kjarnorkuknúnum kafbátum bandaríska sjóhersins verði heimilt að hafa stutta viðkomu við Ísland til að taka á móti kosti og skipta út áhafnarmeðlimum. Þessi ákvörðun utanríkisráðherra er liður í stefnu íslenskra stjórnvalda að styðja við aukið eftirlit og viðbragðsgetu bandalagsríkja á Norður-Atlantshafi.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins þar sem segir að fyrsti kafbáturinn sé væntanlegur á næstunni. Báturinn muni fá þjónustu í nokkurra kílómetra fjarlægð úti fyrir ströndum landsins en mun ekki hafa viðkomu í höfn. Kafbátar af sömu gerð og um ræðir hafa reglulega viðkomu í flestum bandalagsríkjum, þar á meðal um margra áratuga skeið í höfnum í Noregi og nýverið í Færeyjum, að því er segir í tilkynningunni.

Þar segir enn fremur að þessar heimsóknir muni stuðla að því að efla samfellt og virkt kafbátaeftirlit bandalagsríkja sem tryggir betri stöðuvitund og eykur öryggi neðansjávarinnviða á borð við sæstrengi á hafsvæðinu í kringum Ísland, eins og það er orðað. Tíðni heimsókna mun ráðast af þörf hverju sinni.

„Forsætisráðherra og utanríkisráðherra leggja áherslu á að það sé skilyrði fyrir komu herskipa bandalagsríkja til landsins að stjórnvöld í viðkomandi ríkjum bæði þekki og virði ákvæði þjóðaröryggisstefnu Íslands um að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga. Hefur þessi afstaða verið áréttuð í orðsendingu utanríkisráðherra til bandarískra stjórnvalda. Kafbátarnir sem fá heimild til að hafa hér viðdvöl bera ekki kjarnavopn samkvæmt stefnu Bandaríkjanna og eru ekki útbúnir til þess,”að því er segir í tilkynningunni.

Nánari upplýsingar má nálgast hér.

Deila: