Opið fyrir umsóknir um strandveiðileyfi

Deila:

Strandveiðar hefjast 2. maí næstkomandi. Fiskistofa hefur opnað fyrir umsóknir um strandveiðileyfi. Leyfið kostar 72.000 krónur.

Að þessu sinni er sótt um er leyfið í gegn um stafræna umsóknargátt á Ísland.is, með rafrænum skilríkjum. Greitt er fyrir leyfið í umsóknarferlinu og er hægt að fá það gefið út samstundis, eða velja aðra upphafdagsetningu.

Matvælaráðherra gaf út reglugerð um strandveiðar í gær. Þar kom fram að 10 þúsund tonn yrði heimilt að veiða en veiðarnar verða til að byrja með með sama fyrirkomulagi og í fyrra. Hins vegar áréttaði ráðuneytið að reglugerðinni yrði breytt ef frumvarp, sem ráðherra mælti fyrir í þinginu í vetur, verður samþykkt. Þá verður svæðaskipting tekin upp og aflahlutdeilt skipt á milli landsvæða í takti við fjölda báta á hverju svæði.

Skilyrði

  • Haffæri skipsins sem sótt er um leyfi fyrir verður að vera í gildi á umsóknar- og gildistökudegi veiðileyfisins sem sótt er um. Samgöngustofa sér um útgáfu haffæriskírteina.

  • Fiskistofu er einungis heimilt að veita hverri útgerð eða eiganda skips leyfi til strandveiða fyrir eitt skip.

  • Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið. Þegar fiskiskip er í eigu lögaðila er fullnægjandi ef einn eigenda lögaðilans er lögskráður á skipið.

  • Fiskistofu er ekki heimilt að gefa út strandveiðileyfi til skips hafi aflamark í þorskígildum talið, umfram það aflamark sem flutt hefur verið til skips, verið flutt frá skipinu. Frá því að sótt er um strandveiðileyfi er ekki heimilt að fara yfir þessi viðmið.

  • Leyfið er veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð, samkvæmt þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, og skal öllum afla fiskiskips landað í lönd-unarhöfnum þess landsvæðis.

  • Ekki er hægt að sækja um strandveiðileyfi fyrir s.k. „þróunarsjóðsbáta“.

 

Deila: